Einn á hjóli í hnattferð

KAUPA EINTAK

Öll innkoma vegna sölu bókarinnar fer til styrktar forvarnarverkefnum vegna fíkniefnaneyslu íslenskra ungmenna.

Styrktarsjóður Hringfarans hefur nú þegar styrkt slík verkefni fyrir 5.000.000 kr.

Hringfarinn Heimildarmyndin

Frumsýnd 22. nóvember á RÚV

Sjáðu öll myndböndin frá ferðinni minni

Skoða myndböndin

Umsagnir

Ellert B. Schram

Það er algjörlega klikkað að láta sér detta í hug að þvælast hringinn í kringum jörðina á mótórhjóli. Enda er Kristján Gíslason eini Íslendingurinn um þá hringferð, einn á hjóli í tíu mánuði. En hann komst á leiðarenda, vann þetta afrek og hefur núna gefið út bók með frásögn og myndum. Þetta er ekki bara skemmtileg saga, heldur fróðleg og forvitnileg frá A til Ö. Ég sé ekki betur en að Kristján dragi upp þá mynd að fólkið allt um kring, um allan heim, sé ekki bara fallegt (sjá myndir í bókinni) heldur líka vingjarnlegt og viðfelldið. Og krafan er sú sama, hvar sem þú ert. Ákall um frelsi. En allt er afstætt og siðferðið misjafnt. Enda dregur höfundur bókarinnar þá ályktun að hemja þurfi lesti mannskepnunnar og rækta dyggðirnar, hlúa að því góða í fari okkar. Þetta ævintýri Kristjáns Gíslasonar er með því merkasta og flottasta sem ég hef lesið og upplifað. Bók með myndum og texta sem á erindi til allra. Í lokin segir höfundurinn: „Það breyttist eitthvað innra með mér í þesari ferð. Ég öðlaðist auðmýkt gagnvart lífinu.“


Skúli Björnsson

Oft þarf mikinn kjark til að láta drauma sína rætast. Kristján Gíslason hafði kjarkinn og fór einn á mótorhjóli í kringum hnöttinn á 10 mánuðum. Hringfarinn er ferðasaga hans sem hrífur þig með sér. Það er sem þú sért beinlínis farþegi á hjólinu. Sagan gefur skýra mynd á mismunandi aðstæðum fólks á þessari jörð, en fyrst og fremst sýnir hún að fólk getur verið gott og hamingjusamt hverjar svo sem aðstæður þess eru. Bókin er full af myndum sem Kristján tók af mikilli næmni af náttúrunni og fólki sem á vegi hans varð.  Þetta er bók sem á erindi við alla sem vilja auka skilning sinn á heiminum sem við búum í.


Guðbjörg Andrésdóttir

Það fyrsta sem mér dettur í hug eftir lestur þessarar bókar er mjög falleg, einlæg og eiguleg bók ... eins og fallegt málverk. Frásögnin hélt mér vel og fallegar myndir gáfu enn betri sýn inn í þann heim sem ferðast er um. Ég myndi telja að bókin höfði jafnt til kvenna og karla. Bókin talar vel til þeirra sem hafa áhuga á framandi menningu, óháð aldri og á heima á sófaborðinu til að grípa í, fletta, skoða og fræðast. Ég hafði sérstaklega gaman að einlægni Kristjáns og fegurðinni í myndunum. Einnig var fallegt að lesa um allan kærleikann sem mætti honum alls staðar og að fólk sé yfirleitt gott og hjálplegt.


Sindri Jensson

Það er innilega virðingarvert þegar fólk brýtur sig út úr mynstrinu til að elta ævintýri og drauma. Sérstaklega á efri árum er magnað að kúvenda lífi sínu og ferðast til fjarlægra staða. Frásögn Kristjáns er einlæg og það er erfitt að hætta lestri. Ljósmyndirnar eru ótrúlega skemmtilegar og eins skrýtið og það kann að hljóma mjög raunverulegar, ég tengdi við þær og fann mig einhvern veginn kominn á staðina í huganum. Undanfarna daga hef ég haft Hringfarann meðferðis og hvert sem ég kem hefur fólk haft gríðarlegan áhuga á bókinni og flett af miklum ákafa. Sem “coffee-table” bók þá gerir hún meira en ætlast er til, hún rígheldur líkt og kröftugur reyfari. Kristján er rokkstjarna.


Jökull Torfason

Ég hugsa oft um þessa bók og ferðalag föðurbróður míns um hnöttinn. Bókin er einstaklega vel skrifuð og opnar ólíka og framandi heima. Mér leið eins og ég væri að ferðast með honum; upplifði spennuna að fara um ókunn lönd, pirringinn við að eiga við tollverðina, gleðina sem hann fann á ólíklegustu stöðum og síðan auðvitað sorgina við andlát afa Gísla. Ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt með mig þegar ég las kaflann um afa og ömmu og síðustu kveðjuna sem frændi minn segir frá í upphafi bókarinnar.

Skemmtilegast fannst mér að lesa sögur af fólkinu sem hann kynntist á leiðinni og það virtist ekki skipta nokkru máli hvar í heiminum hann væri, hann virtist alltaf umkringdur góðu fólki sem hafði áhugaverða sögu að segja. Einnig voru forvitnilegar frásagnirnar af samferðafólkinu. Það getur virkilega reynt á vina- eða ástarsambönd að ferðast svona í langan tíma og ég efast ekki um að frændi minn hafi lært mikið í mannlegum samskiptum á þessu ferðalagi. Það þarf opinn huga, vilja og þrautseigju að komast í gegnum svona ferðalag og það er í raun ótrúlegt afrek að honum hafi tekist að láta drauminn sinn rætast og klára ferðalagið.